GeislafrŠ­i grundv÷llur lŠknisfrŠ­ilegrar myndgreiningar
Borgartúni 6
105 Reykjavík
S. 595-5186
geislar@bhm.is
www.sigl.is

Segulómun MRI

Í segulómun er ekki notast við röntgen geislun. Notaður er stór segull, útvarpsbylgjur, loftnet og tölva. Líkami mannsins er að miklum hluta vatn og tæknin notfærir sér það. Vetnisróteindir líkamans eru örvaðar af útvarpsbylgjum, loftnetin nema orkuna sem þær gefa frá sér og svo er þeim upplýsingum breytt yfir á tölvutækt form.

Meðal algengustu rannsókna með þessari tækni eru rannsóknir af höfði, hrygg, útlimum, kvið, hjarta, æðakerfi, gallvegum og brjóstum.

Mismunandi segulómtæki eru til. Sum eru eingöngu ætluð til rannsókna á útlimum, önnur eru ætluð til rannsókna á öllum líkamanum. Þau síðarnefndu eru stærri en þau fyrrnefndu. Þau eru n.k. hólkur en eru þó opin í báða enda. Sá hlutur sem er til rannsóknar fer inn í mitt tækið sem gerir það að verkum að oft fer viðkomandi allur inn í tækið. Í dag eru þessi tæki u.þ.b. 140 cm á lengd og gatið sem viðkomandi fer inn í er 60 cm í þvermál. Oft er hægt að setja viðkomandi inn í tækið með fætur fyrst inn ef hann finnur fyrir innilokunarkennd.
Í flestum rannsóknum getur viðkomandi fengið að hlusta á útvarp eða geisladisk á meðan á rannsókn stendur sem getur stytt honum stundir á meðan. Hver rannsókn tekur allt frá 15 mínútum upp í 60 mínútur.

Sökum þess að notaður er stór segull við þessa rannsókn þarf viðkomandi að fjarlægja skartgripi, úr, spennur úr hári og aðra málmhluti. Oftast þarf sá sem rannsaka á að fara úr öllu nema nærfötum og í sérstakan slopp. Með því er betur hægt að fylgjast með að enginn fari inn í herbergið þar sem segullinn er, með málmhluti innanklæða.

Helstu frábendingar fyrir segulómrannsókn eru:
- hjartagangráður
- taugaörvar
- ýmsar tegundir æðaklemma
- málmflís í auga
- fyrstu 3 mánuðir meðgöngu

Það eru geislafræðingar sem framkvæma rannsóknina og röntgenlæknar sem lesa úr rannsókninni.
Áður en viðkomandi fer í rannsókn er hann venjulega upplýstur um framgang rannsóknarinnar og spurður spurninga er varða mögulegar frábendingar fyrir rannsókninni. Þá gefst tækifæri til að spyrja spurninga ef einhverjar eru.