GeislafrŠ­i grundv÷llur lŠknisfrŠ­ilegrar myndgreiningar
Borgartúni 6
105 Reykjavík
S. 595-5186
geislar@bhm.is
www.sigl.is
Lög Félags geislafræðinga
Lögum síðast breytt á aðalfundi 5. apríl 2011
                                                                                
I. KAFLI
NAFN OG TILGANGUR
 
1. GREIN
Félagið heitir Félag geislafræðinga, skammstafað FG. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
 
2. GREIN
Tilgangur félagsins er:
 
1.       Að semja um kaup og kjör félagsmanna.
2.       Að vernda réttindi félagsmanna.
3.       Að stuðla að aukinni menntun og endurmenntun félagsmanna. 
4.       Að efla samstarf og kynni félagsmanna m.a. með fræðslu- og annarri félagsstarfsemi.
5.       Að stuðla að faglegu og stéttarlegu samstarfi við innlend og erlend samtök.
6.       Að vinna að öryggi félagsmanna á vinnustöðum. 
 
II. KAFLI
AÐILD AÐ FÉLAGINU OG ÚRSÖGN
 
3. GREIN
Rétt til aðildar að félaginu hafa:
1.       Þeir núverandi félagar sem lokið hafa námi á röntgendeild og fengið viðurkenningu þar um áður en Röntgentæknaskóli Íslands tók til starfa 1972.
2.       Þeir sem sem lokið hafa námi frá Röntgentæknaskóla Íslands, námsbraut í geislafræði við Tækniskóla Íslands, námsbraut í geislafræði við Tækniháskóla Íslands, námsbraut í geislafræði við Háskólann í Reykjavík starfræktri árin 2005 - 2008 eða geisla- og lífeindafræðiskor læknadeildar Háskóla Íslands. Þeir íslenskir ríkisborgarar sem lokið hafa tilsvarandi námi erlendis og hlotið löggildingu hérlendis.
3.       Þeir erlendir geislafræðingar sem hafa leyfi heilbrigðisyfirvalda til að starfa sem slíkir hér á landi.
Rétt til aukaaðildar hafa:
1.       Íslenskir geislafræðingar búsettir erlendis hálft ár eða lengur.
2.       Nemar á 2, 3 og 4 ári á viðurkenndri námsbraut í geislafræði við Háskóla á Íslandi.
Aukaaðild veitir öll almenn félagsréttindi nema kosningarétt til stofnana félagsins og kjörgengi. Aukafélagar sem ráðnir    eru tímabundið til faglegra starfa á Íslandi njóta sömu réttinda og aðrir félagar hvað varðar stéttarfélagsmálefni.
 
4. GREIN
Inntökubeiðni skal vera skrifleg og með þeim upplýsingum sem félagsstjórn telur nauðsynlegar. Félagsstjórn lætur útbúa eyðublað fyrir inntökubeiðnir. Stjórn félagsins veitir nýjum félögum inngöngu í félagið.
 
5. GREIN
Úrsögn úr félaginu skal tilkynna stjórn félagsins skriflega og telst viðkomandi genginn úr félaginu þrem mánuðum eftir að úrsögn hefur borist.
Félagsmaður sem eigi greiðir félagsgjöld í tvö ár telst hafa sagt sig úr félaginu. Úrsögn hans miðast við að félagsgjöld hafi eigi borist þrem mánuðum eftir að félagsgjald fyrir síðara árið var krafið.
Óski geislafræðingur sem gengið hefur úr félaginu með þessum hætti inngöngu í félagið að nýju, skal hann við inngöngu greiða ógreidd félagsgjöld á verðlagi þess árs sem hann gengur á ný í félagið.
Þyki sannað að félagsmaður hafi framið alvarlegt brot á lögum félagsins eða vísvitandi valdið því tjóni á annan hátt, getur stjórn félagsins vikið viðkomandi úr félaginu. Félagsmaður á þó rétt á, að bera ákvörðun stjórnar um brottvikningu úr félaginu undir úrskurð aðalfundar og ræður þá afl atkvæða.
 
III. KAFLI
STJÓRN OG STJÓRNARSTÖRF
 
6. GREIN
Stjórn félagsins skipa 5 menn og tveir til vara, kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Annað hvert ár skal kjósa formann og 2 meðstjórnendur, en hitt árið tvo meðstjórnendur. Það ár sem ekki er kosið um formann skal kjósa tvo menn í varastjórn.
Formaður er kosinn sérstaklega. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér verkum að öðru leyti og tilnefnir varaformann, bréfritara, fundarritara og gjaldkera.
 
7. GREIN
Formaður boðar stjórnarfundi eftir þörfum.
Stjórnarfund skal boða ef tveir stjórnarmenn óska og skal hann haldinn innan viku frá því að óskin var lögð fram. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar mætir og ræður afl atkvæða úrslitum.
 
8. GREIN
Stjórn félagsins fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins á milli aðalfunda og fylgir eftir lögum félagsins og samþykktum og er í fyrirsvari fyrir það út á við.
Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum.
 
IV. KAFLI
AÐALFUNDUR
 
9. GREIN
Aðalfundur FG fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Hann skal halda í mars – apríl ár hvert.
Á dagskrá aðalfundar skal vera:
 
1.       Skýrsla stjórnar.
2.       Endurskoðaðir reikningar félagsins, kynntir og bornir undir fundinn.
3.       Lagabreytingar.
4.       Fjárhagsáætlun stjórnar kynnt, ásamt ákvörðun um félagsgjöld.
5.       Kosning stjórnar, varamanna og endurskoðenda.
6.       Kosning í lögboðnar nefndir félagsins.
7.       Önnur mál.
10. GREIN
Allir félagsmenn eiga rétt til setu á aðalfundi. Skriflegt fundarboð skal senda félagsmönnum tveim vikum fyrir aðalfund. Í aðalfundarboði skal vera:
1.       Dagskrá samkvæmt lögum.
2.       Tillögur um lagabreytingar ef einhverjar hafa komið fram.
Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.
 
11. GREIN
Tveim mánuðum fyrir aðalfund skipar stjórn félagsins uppstillingarnefnd, sem skal skipuð þrem félagsmönnum, þ.a. einum úr stjórn. Nefndin leggur fram tillögur um nýja menn í stjórn og önnur embætti sem kjósa skal í á aðalfundinum. Berist fleiri tillögur en nefndin kemur með skal fara fram leynileg, skrifleg kosning.
 
12. GREIN
Auka-aðalfund skal kalla saman þegar stjórn þykir ástæða til eða þegar minnst 20 félagsmenn óska þess skriflega.
 
V. KAFLI
KJARAMÁL
 
13. GREIN
Innan félagsins starfar samninganefnd gagnvart ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum og vinnuveitendum á almennum markaði. Hlutverk samninganefndar er að annast samningsgerð fyrir viðkomandi hópa félagsmanna gagnvart vinnuveitendum. Samninganefnd skal bera nýjan kjarasamning undir atkvæðagreiðslu viðkomandi félagsmanna.
 
14. GREIN
Í samninganefnd skulu eiga sæti 4-7 fulltrúar. Í nefndinni eru 4 fulltrúar kosnir á aðalfundi félagsins og 1-3 fulltrúar viðkomandi hóps félagsmanna gagnvart vinnuveitanda.
 
15. GREIN
Félagsmenn, sem starfa hjá sama vinnuveitanda, geta kosið sérstaka samninganefnd. Ósk um sérstaka samninganefnd skal tilkynna stjórn félagsins.
 
VI. KAFLI
FJÁRMÁL
 
16. GREIN
Gjöld til félagsins eru tvenns konar:
Stéttarfélagsgjöld þeirra sem félagið hefur samningsrétt fyrir, þar með talið auka­félaga skv. 3. grein, 6. lið, skulu ákveðin sem hlutfall af launum og annast félagið innheimtu þeirra mánaðarlega.
Heimilt er að ákveða fast gjald (miðað við starfshlutfall) fyrir félagsmenn á almennum vinnumarkaði.
Fagfélagsgjöld skulu ákveðin sem fast árgjald og ákveður stjórn félagsins hvernig þau eru innheimt. Aukafélagar (sjá 3. grein) greiða 50% af fagfélagsgjaldi.
Lífeyrisþegar greiða ekki félagsgjöld, en halda fullum félagsréttindum. Félagstjórn er heimilt að lækka eða fella niður félagsgjöld ef veikindi eða aðrar sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
 
17. GREIN
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu lagðir fram á aðalfundi.
Aðalfundur kýs tvo endurskoðendur og tvo til vara.
 
VII. KAFLI
FRÆÐSLU OG FÉLAGSMÁL
 
18. GREIN
Á aðalfundi annað hvert ár skal kjósa í eftirfarandi nefndir:
1.       Í menntunarnefnd félagsins skal kjósa 6 geislafræðinga.
2.       Í ritnefnd skal kjósa 4 geislafræðinga.
3.       Í siðanefnd skal kjósa 5 geislafræðinga og 2 til vara. Nefndin starfi að stöðugri endurskoðun á siðareglum stéttarinnar, leiðbeini um vafaatriði og stuðli að umfjöllun meðal félagsmanna. Nefndarmenn setja sér starfsreglur og skipta með sér verkum.
19. GREIN
Alþjóðanefnd:
Á aðalfundi skal kjósa 4 fulltrúa í nefnd félagsins sem ber ábyrgð á norrænum og alþjóðlegum samskiptum, svonefnda Alþjóðanefnd. Nefndin er skipuð 5 fulltrúum og er formaður félagsins sjálfkjörin(n) eða tilnefndur aðili úr stjórn í hans stað. Kjósa skal 2 fulltrúa annað hvert ár til 4 ára. Nefndarmenn kjósa formann og ritara á fyrsta fundi eftir aðalfund. Nefndin setur sér starfsreglur sem lagðar eru fyrir stjórn félagsins. Nefndin fjallar um öll fagleg mál er snúa að norrænu og alþjóðlegu samstarfi félagsins og er stjórn til ráðgjafar.
 
20. GREIN
Félagsstjórn boðar til fundar í félaginu, þegar hún sér ástæðu til. Skylt er henni að boða til fundar ef a.m.k. tíu félagsmenn æskja þess. Félagsfund skal boða með a.m.k. 1 viku fyrirvara. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
 
VIII. KAFLI
MERKI FÉLAGSINS
 
21. GREIN
Merki félagsins er afhent við inngöngu í félagið. Rétt til að bera merki félagsins hafa þeir geislafræðingar sem hlotið hafa löggildingu hérlendis til geislafræðistarfa.
Merkið er eign félagsins, en ákveðin upphæð greiðist í eitt skipti fyrir öll fyrir heimild til að nota það. Við fráfall eða úrsögn ber að endursenda merkið stjórn félagsins endurgjaldslaust.
 
IX. KAFLI
LAGABREYTINGAR
 
22. GREIN
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi sé breytingin samþykkt með tveimur þriðju hlutum atkvæða. Tillögur til lagabreytinga þurfa að berast stjórn félagsins 3 mánuðum fyrir aðalfund.
 
X. KAFLI
GILDISTAKA
 
23. GREIN
Lög þessi öðlast þegar gildi og um leið falla úr gildi eldri lög RTÍ.